Í myndinni ÍSLANDSSTRÆTI, JERÚSALEM eru sögur af þremur þjóðum. Hér er sagan um samskipti Íslands og Ísraels, tveggja þjóða sem lengi ástunduðu gott samstarf á alþjóðavettvangi og einnig sagan af Palestínuþjóðinni sem glataði landi sínu.

Samband Ísraels og Íslands var náið fyrstu áratugina eftir að Íslendingar stofnuðu lýðveldi 1944 og Ísraelar ríki sitt 1948. Þjóðirnar tvær töldu sig eiga  samleið sökum smæðar, þrá eftir friði og mikilvægi sögunnar sem mótaði hugmyndaheim þeirra. 


Friðartalið byggði þó ekki á þeim veruleika sem á bak við bjó. Íslendingar hafa aldrei haldið úti her eða farið með ófriði gegn öðrum ríkjum en Ísraelar voru frá upphafi vígbúin hernaðarþjóð sem sífellt hefur staðið í hernaði við nágranna sína og stækkað ríki sitt með vopnavaldi. Íslendingar stæra sig af vopnleysi sínu og friðsamlegri sambúð en Ísraelar ala upp sínar kynslóðir sem vígasveitir ungra karla og kvenna - „Við erum kynslóð landnema og án stálhjálmsins og byssukjaftsins munum við ekki geta gróðursett tré eða byggt hús. Þetta eru örlög okkar kynslóðar. Þetta er  okkar ákvörðun, að vera reiðubúin og vopnuð, harðger og gróf - falli sverðið úr hendi okkar verða það okkar endalok“ sagði Moshe Dayan varnarmálaráðherra Ísrael.


Íslendingar áttu sinn þátt í tilurð Ísraelsríkis á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og voru stoltir af því. Ísraelar sýndu því Íslendingum margvíslegan heiður og árið 1966 heimsótti forseti Íslands Ísrael og varð fyrsti erlendi þjóðhöfðinginn sem ávarpaði Knesset, þing Ísraela.

Hápunktur heimsóknarinnar var í Jerúsalem þegar Ásgeir Ásgeirsson klippti á borða og opnaði formlega  nýja götu sem hlaut nafnið Íslandsstræti.

Boðskapur Moshe Dayan og fleiri ráðamanna Ísraels (sem fram til okkar daga hafa allir verið hertir í eldi orrustunnar)  um byssukjafta og stálhjálma  var aldrei hafður í frammi þegar þeir heilsuðu vinaþjóðinni sem taldi sig boðbera friðar.


Öll sagan var ekki sögð í ræðum um sameiginlegar friðarhugsjónir og gleði vegna „heimkomu“  gyðinganna til fyrirheitna landsins.

Í landinu bjó fyrir þjóð sem „hvarf“ sjónum þeirra sem töldu sig fylgjendur mannréttinda og friðar.

Í ræðunum var aldrei minnst á örlagaríka sögu þjóðarinnar sem missti land sitt og réttindi þegar „Íslandsvinirnir“ ráku fyrri íbúa á flótta.


ÍSLANDSSTRÆTI JERÚSALEM

Handrit

Hjálmtýr Heiðdal


Stjórn

Hjálmtýr Heiðdal


Myndin er í undirbúning.

„Hið vængjaða hugtak „sjálfsákvörðunarréttur þjóðanna“, sem hafði svo hvellan og fagran hljóm í eyrum allra undirokaðra þjóða, varð einnig svo máttugt á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar, að stórþjóðirnar töldu happadrýgst að játast undir, að framfylgja því í verki að styrjöldinni lokinni. Arabarnir í Palestínu töldu, að þessi sjálfsákvörðunarréttur ætti einnig að ná til sín.

En af því varð nú ekki, og að þessu leyti var farið með þá sem sigraða þjóð. Þeir voru ekki aðeins settir undir forræði annarra, heldur sviptir heimild til að ráða nokkru um það, hvernig farið yrði með land þeirra. Vissum flokki útlendinga úr öllum heimi var boðið upp á að setjast að í landinu, og heimaþjóðinni var það alveg um megn, að spyrna hér á móti broddunum. Hin sigrandi stórveldi heimsins höfðu gert samþykkt um, að þetta land skyldi notað handa öðrum eftir þörfum“.


Dr. Björn Þórðarson forsætisráðherra íslands 1942 - 1944. Úr bókinni Gyðingar koma heim

Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur veitt handritsstyrk

Ráðgjafi: Martin Schlüter